Þó að í dag sé aðgangur að upplýsingum meiri heldur en áður í mannkynsögunni og hægt er að nálgast bækur og fróðleik um flest málefni af hvaða tagi sem er þá er það samt svo að jafnvel á vesturlöndum eru mjög margir sem vita ekki hvernig sá Guð er sem Jesús Kristur kom til að opinbera og boða.  Hans takmark var að útskýra skýrt og greinilega hvernig hinn eini sanni raunverulegi Guð er. Hann útskýrði hvernig hann hefur opinberað sig í gegnum tíðina, hvernig hann er og hvað er hans orð. Það er því mjög athyglisvert fyrir marga að vita hvernig Guð hann kom til að opinbera, það er sennilega eina leiðin til að geta metið sannleiksgildi fullyrðingana.

Guð er sá að hann Er. Hann er eilífur. Í honum er enginn tími, hvorki byrjun né endir. Hann Er. Sú vídd sem mennirnir skilja og skynja er ekki hjá honum. Fyrir honum er fortíð, framtíð og nútíð eitt. Hann skilur víddina sem mennirnir eru í en hann er ekki í henni né bundinn af henni.

Guð býr í ljósi sem ekki er hægt að nálgast og enginn getur litið. Hann dvelur í óendanlegum krafti dýrðar sinnar.  Í hanst innsta kjarna  er slíkt ljós og kraftur svo að þangað kemst aldrei neitt hold.  Guð er sjálfur ljós og myrkur er ekki í honum. Í honum er og verður aldrei neitt myrkur. Hjá honum og í honum eru engir skuggar né umbreyting, hann er óumbreytanlegur. Guð er almáttugur og í honum er uppspretta alls máttar og kraftar alheimsins.   Guð er Guð dýrðarinar og í hans veru er fullkominn friður, fullkominn ást, fullkominn fögnuður og fullkominn unaður.  Hans er allt í senn mátturinn krafturinn og dýrðin.

Guð er Andi. Hann verður því ekki séður með holdlegum augum. Guð  er andleg  sjálfstæð vitundarvera  með sjálfstæðann vilja. Hann skapaði manninn sem andlega sjálfstæðar vitundarverur í sinni mynd, líkan sér.  Maðurinn er ekki Guð en hann getur átt andlegt samfélag við Guð og skynjað nærveru anda hans. Guð getur tjáð sig með og án Orða. Guð er Andinn og þar sem Andi Guðs er þar er frelsi.

Guð er alvitur. Hann veit allt og ekkert er honum hulið. Guð er vitrænn, hann  hugsar og hefur  ótakmörkaða þekkingargetu, í honum eru allir fjársjóðir spekinar og þekkingar. Hvert hár á höfði mannana er talið, sem og hvert sandkorn og ekki fellur spörvi til jarðar án þess að hann viti af því. Hann sér allt og er vakandi yfir vondum og góðum. Fyrir honum er allt augljóst og opinbert. Hann sér nákvæmlega allt sem gerist innra með hverjum einasta einstaklingi, allt það sem er dulið í hjörtum allra manna. Guð er skapari allra hluta og hefur sett af stað þau lögmál sem virka í alheiminum.

Guð er kærleikur. Hann er algóður og í honum er og verður aldrei neitt illt. Um leið og Guð er andleg vitundavera sem tekur ákvarðanir og hefur sjálfstæðan vilja, þá er hann í eðli sínu hreinn kærleikur. Guð er í eðli sínu algjörlega hreinn og í honum er ekkert óhreint. Hann er þannig Heilagur og hann getur ekki samlagast neinu illu. Hans andi er fullkomlega hreinn. Guð er fullkominn.

Guð er sannleikur og hann getur ekki logið. Guð er í eðli sínu Andi sannleika og þess vegna getur hann ekki logið.  Guð er takmarkaður af eðli sínu og orðum og getur ekki verið ósamkvæmur sjálfum sér. Hann er óumbreytanlegur og Þó að hann hafi allan mátt þá getur hann ekki gert neitt andstætt sínu eigin eðli. Guð er réttlátur, öll hans breytni er rétt og sanngjörn.

Guð faðirinn sjálfur í sínu innsta eðli er lifandi persóna og kjarni alls lífs, Orð hans er lifandi persóna sem setur vilja hans í framkvæmd, Andblásturinn sem gengur út frá honum er einnig lifandi persóna sem sem framkvæmir og fulkomnar hinn ótal, margvíslegu verk hans. Guð er hið sanna líf.

Jesús sagði: það er hið eilífa líf að þekkja hin eina sanna Guð og þann sem hann sendi Jesú Krist.