Iðrun er hugtak sem er notað til að útskýra þá stórkostlegustu umbreytingu sem getur átt sér stað innra með manneskju. Iðrun er það jákvæðasta sem nokkur einstaklingur getur upplifað. Iðrun er viðvarandi innri og ytri stefnubreyting til hins betra. Frá mínus til plús, frá neikvæðu til hins jákvæða, frá ranglæti til réttlætis, frá illu til Guðs.

Þau orð sem notuð eru um iðrun í Biblíunni á Hebresku  og Grísku þýða í eiginlegri merkingu að að snúa aftur til Guðs og að skipta um hugarfar, umbreyting á innri manni. Sumir hafa misskilið iðrun og haldið að iðrun sé samviskubit, nagandi sektarkennd eða mikil eftirsjá. Samvitund okkar innri manns um hvað er rétt og rangt varar okkur við og lætur okkur vita þegar við gerum eitthvað rangt og þá geta menn fengið samviskubit og séð eftir því sem þeir gera en það þýðir ekki að þeir hafi iðrast þ.e. skipt um hugarfar,umbreyst hið innra og snúið sér til Guðs. Samvitundin getur samverkað til góðs og verið undanfari sannrar iðrunar en í mörgum tilfellum gerist það ekki.. Það er gott að hlýða samviskunni en sektarkennd hjálpar oft á tíðum ekki til við það. Þess í stað viðhalda neikvæðar tilfinningar sektarkenndarinnar mönnum oft á tíðum í viðjum vanans. Aðrir finna sér ýmsar leiðir til að kveða þessar tilfinningar í kútinn en viðhalda eftir sem áður fyrri breytni og afstöðu.  En orð Guðs segir að gæska Guðs vilji leiða okkur til iðrunar og Jesús útskýrði hvernig Guð vill leiða fólk til iðrunar með því að sannfæra það um hvað er að missa marks og hvað er réttlátt. Hann sagði einnig: „Allur lýðurinn og tollheimtumenn viðurkenndu réttlæti Guðs og skírðust iðrunarskírn af Jóhannesi en farísear og fræðimenn gerðu að engu áform Guðs fyrir þá og létu ekki skírast.“ Undanfari sannrar iðrunar er að skilja og viðurkenna réttlæti Guðs.

Skilvirkur og áhrifaríkur boðskapur sem raunverulega breytir lífi einstaklinga og þjóða til hins betra felur í sér hvatningu til sannrar iðrunar. Jesús  gekk um borgir og bæi þar sem hann prédikaði: „Gjörið iðrun Guðs ríki er í nánd.“ Hann sagði lærisveinum sínum það sama og þeir fóru um og prédikuðu: „Gjörið iðrun himnaríki er í nánd.“  Orð Guðs segir: „Guð sem hefur umborið tíma vanviskunnar boðar nú öllum mönnum alls staðar að þeir skuli iðrast.“

Gjörið iðrun

Snúið ykkur aftur til Guðs. Takið endurnýjun hugarfarsins og umbreytingu á innra manni.